Lítið um að vera

Já, það hefur verið lítið um að vera hjá ritstjóra Vínsíðunnar að undanförnu.  Lítill tími til vínrannsókna en þeim mun meira að gera við jólaundirbúninginn.  Ég náði þó að opna Havana Hills Cabernet Sauvignon 2005 í gær.  Suður-Afrískt vín frá framleiðanda sem ég veit ósköp lítið um.  Vínið gekk þó ágætlega með matnum – nautasteik með madeirasósu.  Unglegt vín, berja- og piparkeimur ásamt ögn af leðri.  Ágæt fylling með þokkalegu eftirbragði.
Í vikunni fengum við okkur líka Wolf Blass Yellow Label Chardonnay 2006 sem fór vel með Sushi.  Svolítið eikað hvítvín, sítruskeimur (einkum greipaldin), góð fylling en stutt eftirbragð.
Ég ætla að breyta út af vananum þessi jól og hafa kalkún á aðfangadagskvöld í stað hamborgarhryggsins hefðbundna.  Ég er ekki enn búinn að ákveða hvað ég ætla að drekka með kalkúninum en er með ýmsar hugmyndir í gangi.  Svo þarf ég líka að finna mér eitthvað með hangikjötinu.  Hver veit nema við gerum svo jólaskinku að sænskum sið og þá þarf auðvitað eitthvað með skinkunni!
Mamma og pabbi koma til okkar um jólin og þau kippa væntanlega einhverju góðu með sér úr Fríhöfninni (það er jú allt svo ódýrt á Íslandi núna, eða hvað?).

Vinir á Facebook