Meira um Búrgúndí

Ég hef legið í bælinu undanfarna daga með þursabit og því haft aðeins meiri tíma en venjulega til að sjá um Vínsíðuna. Svo var ég svo heppinn í gær að Guðrún kom heim með nýjasta Wine Spectator þar sem er umfjöllun um Bourgogne. Ég verð að játa það að ég er enginn sérfræðingur í Búrgúndarvínum en les þó ávallt umsagnirnar og reyndi að leggja nöfn góðra framleiðenda á minnið. Það er er nokkuð gegnumgangandi í þessu blaði er að nafn Lucien Le Moine kemur ansi oft fyrir og vín hans yfirleitt í hópi þeirra bestu frá hverju svæði. Nafn Lucien Le Moine er nafn sem ég þekki ekkert sérstaklega vel. Hann er négociant, þ.e. hann ræktar ekki þrúgurnar sjálfur heldur kaupir af vínbændum og býr svo sjálfur til vínin. Flest af hans vínum eru aðeins framleidd í litlu magni, yfirleitt um 50 kassar af hverri tegund. Ég gerði mér litlar vonir um að nálgast eitthvað af hans vínum en villtist svo inn á vinogmatur.is! Vín og matur er fjölskyldufyrirtæki sem flytur inn vín sem þeim sjálfum finnst vera góð (sjálfur held ég að ég myndi líka halda mig við þá stefnu ef ég flytti inn vín), m.a. vín frá d’Arenberg (Ástralía), Umano Ronchi (Ítalía) og Lucien Le Moine! Því miður kemur ekki almennilega fram á heimasíðunni nákvæmlega hvaða vín þau flytja inn, því af mörgu er að velja – Lucien Le Moine á 16 vín sem fá 93+ stig hjá Wine Spectator og enginn annar framleiðandi getur státað af slíku. Vert er að nefna að á listanum yfir framleiðendur sem Vín og matur flytja inn er einnig Domaine Jean Grivot, sem fær mjög góða umsögn, og Vincent Girardin sem einnig fær þokkalega dóma.  Ég fæ þó ekki séð að þessi vín séu fáanleg hjá ÁTVR, en vonandi er hægt að panta þau.

Vinir á Facebook