Allegrini

Nú er Ítalíuferðinni lokið og í henni voru nokkur vín innbyrt, þó ansi misjöfn að gæðum. Mest var drukkið af vínum úr héraðinu Bardolino en bærinn Garda, þar sem við dvöldum, tilheyrir einmitt því héraði. Eftirminnilegust eru þó vínin frá Allegrini sem er einn af betri framleiðendunum á þessum slóðum. Allegrini-fjölskyldan hefur framleitt vín a.m.k. síðan á 17. öld, ef ekki lengur. Það var þó einkum Giovanni Allegrini sem byggði upp framleiðsluna og eitt hið mikilvægasta sem hann gerði áður en hann lést langt um aldur fram 1983, var að kaupa La Grola-vínekruna, þaðan sem helstu vín fjölskyldunnar koma, þ.á.m. La Grola og La Poja sem er eitt besta vínið í Valpolicella sem ekki er framleitt með Amarone-aðferðinni (þrúgurnar þurrkaðar áður en sjálf vínframleiðslan hefst). Allegrini framleiðir líka hefðbundið Valpolicella Classico, en einnig Grappa, ólífuolíur og balsamedik!
Af því sem ég smakkaði ber fyrst að telja Allegrini La Grola 2003, dökkrautt vín með áberandi berjakeim en einnig dálítill pipar. Góð fylling og gott jafnvægi. Allegrini palazzo della torre 2004 er einnig fallega dökkrautt, angan af kryddi, berjum og vottur af eik. Góð fylling, sýran aðeins yfir meðallagi, gott eftirbragð. Allegrini Valpolicella Classico 2005 er nokkuð ljósara og unglegra að sjá. Kirsuber, krydd og plómur áberandi í nefi, áberandi tannín en annars gott jafnvægi.
Niðurstaðan er því sú að vín Allegrini-fjölskyldunnar uppfylla vel þær kröfur sem gera má til þeirra, almennt séð nokkuð góð kaup og hagstæð fyrir budduna, passa vel með grilli, ostum og ítölskum mat.

Vinir á Facebook