Guigal-veislan

Ég komst í fína Guigal-veislu um daginn. Einar Brekkan bauð mér í mat ásamt finnskum kunningja sínum sem er mikill vínsérfræðingur. Þar var m.a. boðið upp á ýmis Guigal vín og aðra eins veislu hef ég ekki komið í síðan Hermann og Hugrún voru í heimsókn (reyndar bara 3 vikur síðan!). Í forrétt var boðið upp á laxapaté og með því drukkum við Guigal Hermitage hvítvín (2004 ef ég man rétt). Það er fallega gult vín með góðri blóma- og hunangsangan, dálítið kryddað en með áberandi hnetu- og eikarkeim í munni. Vínið á mikið eftir og verður feiknagott eftir 5-7 ár. Í aðalrétt var pastaréttur með nautalund (virkilega gott pasta) og með því drukkum við Guigal Côte-Rôtie Brune et Blonde 2002. Það er nokkuð dökkt með góða fyllingu og dýpt, í nefi kryddað með berja- og eikarilm. Í munni mjúk tannín með vott af sólberjum og hindberjum, krydd (vanilla?) og ögn af eik ásamt hæfilegri sýru. Mjúkt og þægilegt eftirbragð. Á mikið eftir (10-15 ár í toppinn?). Þegar það var búið drukkum við svo litla bróðurinn Guigal Côtes-du-Rhône, kryddað og frísklegt vín sem kostar aðeins um 100 SEK (1.490 hjá ÁTVR) og þannig mjög góð kaup.

Vinir á Facebook