Cakebread Cellars Cabernet Sauvignon 1996

Vín mánaðarins í október 2000 er dúndurbolti frá Cakebread Cellars í Kaliforníu – Cabernet Sauvignon 1996. Sá árgangur var mjög góður í Kaliforníu, en heldur í smærra lagi þó, vegna rigninga í apríl 1996. Sumarið var hins vegar gott, þrúgurnar fengu góðan tíma til að ná þroska og urðu mjög kröftugar.
Þrúgurnar í þessu víni (78% cabernet sauvignon, 15% merlot, 5% cabernet franc og 2% syrah) koma frá vínekrum í Oakville, Stag’s Leap og Rutherford. Safinn fékk að liggja með hýði og hrati í 3 vikur eftir að gerjun lauk, en víngerðarmaðurinn Bruce Cakebread smakkaði síðan úr hverri einustu tunni og ákvað síðan hvenær ætti að skilja safann frá. Að þessu loknu lá vínið í eins og tveggja ára gömlum tunnum úr franskri eik í 25 mánuði áður en öllu var blandað saman og vínið sett á flöskur haustið 1998.
Vínið er nú unglegt að sjá en sýnir þó byrjandi þroska, er miðlungsdökkt og með miðlungsdýpt. Í nefið kemur hvítur pipar, lakkrís, ástaraldin, vanilla og eik, en ennþá dálítið lokuð lykt. Nokkuð tannískt vín, hæfileg sýra og gott jafnvægi. Langt og gott eftirbragð – vín sem kreistir á manni tunguna í fyrstu en springur svo út. Ekta villibráðarvín.
Einkunn: 8,0

Vinir á Facebook