Áramótannáll Vínsíðunnar – Vín ársins 2025

Þá er 28. starfsár Vínsíðunnar að baki og það verður að segjast að þetta ár hafi verið eitt það allra rólegasta í sögu Vínsíðunnar. Tími til vínskrifa hefur verið af skornum skammti og svo virðist sem einhver ritstífla hafi gripið ritstjórann á árinu. Vonandi losnar um stífluna á nýju ári…

Árið 2025 í hnotskurn

Það voru ekki nema 11 vín til umfjöllunar á Vínsíðunni þetta árið auk þess sem ég birti pistil um vínhéraðið Loire í Frakklandi. Ég skannaði inn 147 vín á Vivino, en hef líklega náð að smakka annan eins fjölda til viðbótar, þannig að smökkunarlega séð var árið 2025 svipað og undanfarin ár.

Annars var það markverðast að ég skrapp til Frakklands í febrúar á Wine Paris sýninguna. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fór á slíka sýningu og það kom mér á óvart hversu gríðarstórar svona sýningar eru. Þarna voru rúmlega 5.400 framleiðendur að kynna vörur sínar og alls mættu rúmlega 52.600 gestir á sýninguna sem stóð yfir í 3 daga. Sýningin var gríðarlega áhugaverð og þarna smökkuðum við tæplega 250 vín, sem líklega er minna en 1% af því sem þarna var til sýnis.

Margir vínskríbentar útnefna vín ársins ár hvert. Þekktasta útnefningin er líklega sú sem tímaritið Wine Spectator veitir ár hvert, en vín ársins 2025 að þeirra mati var Château Giscours Margaux 2022. 2016-árgangurinn af þessu víni er að detta úr reynslusölu Vínbúðanna þar sem það kostaði 27.810 krónur. Það eru því nokkur ár í að við getum eygt veika von um að sjá 2022-árganginn í vínbúðunum en líklega verður verðmiðinn nokkuð breyttur, því það fylgir jafnan sigrinum að verðið hækkar verulega.

James Suckling valdi Château d’Issan Margaux 2022 sem vín ársins og greinilegt að árið 2022 hefur verið einstaklega gott í Margaux. Suckling velur reyndar 100 bestu vín ársins fyrir mörg svæði og það gerir Tim Atkin MW einnig.

Vínþjónasamtökin stóðu líkt og undanfarin ár fyrir valinu á Gyllta Glasinu. Keppnin er tvískipt þar sem annars vegar er fjallað um vín frá Nýja heiminum (öll lönd utan Evrópu) ásamt rósavínum hvaðanæva að, og svo hins vegar er fjallað um vín frá Gamla heiminum (Evrópa). Tuttugu vín hljóta Gyllta Glasið í hvorum hluta.

Þá vakti nokkra athygli þegar Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru á hendur forsvarsmanns Smáríkisins fyrir sölu á einni hvítvínsbelju. Um svipað leyti var smásala áfengis í Fríhöfninni boðin út til einkaaðila… Netverslanir hafa sprottið hér upp eins og gorkúlur og ég fjallaði um þær í fyrra, en ég hef ekki skoðað hvort þeim hafi fjölgað frekar á árinu 2025.

Það komst líka í fréttir að sumir víninnflytjendur kjósa að kaupa sínar eigin vörur í miklu magni þegar þær eru í reynslusölu og koma þeim þannig inn í kjarna þegar neytendur sýna vörunum ekki áhuga. Lausleg athugun mín bendir til þess að 2 af hverjum 3 vínum sem komast upp úr reynslusölu og í kjarna vínbúðanna hljóti utanaðkomandi stuðning (kaup seljanda á eigin vöru), enda verður stundum 5-600% söluaukning einn mánuðinn sem hleypir víninu inn í kjarna. Fæst þessara vína eru hins vegar að standa sig þegar í kjarna er komið og detta út að loknu fyrsta ári í sölu. Víninnflytjendur hljóta að hafa reiknað dæmið og séð að þetta gangi upp fjárhagslega, en við neytendur sitjum uppi með minna spennandi vörur í kjarna vínbúðanna. Vonandi láta menn af þessari vitleysu á nýju ári…

Vín ársins 2025

Ég hef í mörg ár valið vín ársins á Vínsíðunni, þar sem ég reyni að velja vín sem hefur skarað fram úr þegar kemur að verði og gæðum. Þannig er það sjaldnast besta vín sem ég smakkaði á árinu en frekar það sem mætti kalla bestu kaup ársins. Vín ársins 2025 er íslenskum vínunnendum vel kunnugt, enda hefur það verið fáanlegt í Vínbúðunum síðan 2021. Vínið kemur frá vínhúsi Marques de Murrieta og hefur lengst af verið flokkað sem Reserva, en nú hefur Reserva-heitið verið fellt niður og Vín ársins 2025 síðunni kallast nú einfaldlega Marques de Murrieta 2021.

Marques de Murrieta 2021 er gert úr þrúgunum Tempranillo (86%), Graciano (8%), Mazuelo (4%) og Garnacha Tinta (2%). Vín er gerjað í stáltönkum en svo lagt í amerískar eikartunnur í 26 mánuði. Þá var það fært yfir í steypta tanka til frekari hvíldar áður en það fór loks á flöskur. Vínið hefur djúpan og dökkan rúbínrauðan lit, með angan af vanillu, kókos, eik, sólberjum, kirsuberjum, brómber, rósmarín, sedrusvið, plómur og kryddpipar. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru og þétt tannín. Eftirbragðið heldur sér vel og lengi, og það má finna kirsuber, súkkulaði, bláber, vanillu, kókos, balsam, plómur og eik. 95 stig. Frábær kaup (4.989 kr. í Vínbúðunum). Fer vel með góðum steikum – naut, lamb eða villibráð, en einnig með hörðum ostum og spænskum kryddpylsum. Vínið er tilbúið til neyslu en mun halda sér vel og batna enn frekar næsta áratuginn og því um að gera að kaupa sér kassa eða tvo til geymslu.

Gagnrýnendur hafa keppst við að ausa vínið lofi – Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur því 5 stjörnur, Robert Parker gefur 95 stig, Decanter gefur 96 stig, Tim Atkin gefur 95 stig og James Suckling 94 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (263 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Vínsíðan þakkar lesendum samfylgdina á árinu og vonast til að starfsemin eflist aftur á nýju ári.

Vinir á Facebook