Loire-dalurinn er eitt stærsta og fjölbreyttasta vínræktarhérað Frakklands. Loire-áin, sem er lengsta á Frakklands, rennur yfir 1000 km frá Massif Central til Atlantshafsins við borgina Nantes. Svæðið nær yfir víðáttumikið landsvæði og spannar allt frá sjávarloftslagi í vestri yfir í meginlandsloftslag í austri. Loire-hérað er stærst þegar kemur að hvítvínsframleiðslu, næst-stærst í gerð freyðivína og í heildina þriðja stærsta héraðið í framleiðslu AOC-vína.
Vínsagan
Saga Loire-dalsins nær aftur til fornaldar þegar Keltar settust þar að, en Rómverjar tóku svæðið yfir á fyrstu öld fyrir Krist. Þeir stofnuðu borgir á borð við Orléans og Tours og hófu skipulagða ræktun vínviðar. Eftir fall Rómaveldis urðu mörg klaustur í dalnum miðstöðvar vínræktar og menningar, og þar hófst uppbygging stærri og skipulagðari vínekrna.
Á miðöldum varð Loire-dalurinn einn mikilvægasti menningar- og stjórnmálakjarni Frakklands. Árið 1429 markaði Jóhanna af Örk (Jeanne d’Arc) upphaf sigurgöngu sinnar gegn Englendingum frá borginni Orléans. Á tímum endurreisnarinnar, einkum á 15. og 16. öld, reistu franskir konungar og aðalsfólk fjölmarga glæsilega kastala meðfram Loire-ánni, sem í dag eru heimsfrægir og hluti af heimsminjaskrá UNESCO.
Árið 1539 gaf Frans I út tilskipun frá kastalanum í Villers-Cotterêts sem gerði frönsku að opinberu tungumáli stjórnvalda í stað latínu, og styrkti þar með stöðu frönsku þjóðarinnar sem miðstöð evrópskrar menningar. Á þessum tíma nutu vín frá Loire gífurlegrar vinsældar við hirðina, og konungar á borð við Frans I og Hinrik IV voru miklir aðdáendur þessara vína, einkum frá svæðunum Anjou og Touraine.
Á 17. og 18. öld urðu Loire-vín vinsæl utan Frakklands, sérstaklega í Bretlandi og Hollandi. Þau voru eftirsótt fyrir fjölbreytileika sinn, allt frá þurrum og léttum vínunum í Pays Nantais til ríkra og sætra vína frá Coteaux du Layon.
Í lok 19. aldar reið Phylloxera-rótarlúsin yfir Evrópu og olli gríðarlegum skaða á vínviðnum í Loire eins og annars staðar. Þetta leiddi til mikillar uppstokkunar í vínræktarsvæðinu og þess að nýr vínviður með ónæmar rætur frá Norður-Ameríku var gróðursettur í stað þess sem rótarlúsin drap.
Á síðari hluta 20. aldar komst Loire-svæðið aftur í sviðsljósið fyrir framleiðslu vandaðra og vel metinna vína. Aukin áhersla á lífræna og sjálfbæra vínrækt hefur einnig gert Loire-vín að vinsælum valkosti meðal vínáhugafólks.
Helstu vínsvæðin, AOC og þrúgur
Loire er skipt upp í fimm svæði: Pays Nantais, Anjou-Saumur, Touraine, Mið-Loire og Efra-Loire. Innan þessara svæða eru svo 87 skilgreind AOC-svæði (Appellations d’Origine Contrôlée) en hér verður aðeins fjallað um þau helstu.

Pays Nantais
Pays Nantais er vestasti héraðið í Loire og nær alveg niður að Atlantshafi, sem hefur mikil áhrif á loftslag héraðsins (temprað loftslag, oft vætusamt með mildan vetur og hlý sumur). Hér lifnar vínviðurinn fyrst við á vorin og uppskeran hefst ávallt fyrst í Pays Nantais. Héraðið er þekkt fyrir Muscadet-vín, gerð úr þrúgunni Melon de Bourgogne.
Mest ræktaða þrúga héraðsins er Melon de Bourgogne (um 75% af ræktuninni). Mest ræktaða rauða þrúgan er Gamay.
Helstu AOC í Pays Nantais eru:
- Muscadet AOC: Þurr, létt og fersk hvítvín með mildum sítrus- og steinefnatónum. Innan Muscadet AOC eru þrjú undirsvæði:
- Muscadet Sèvre et Maine AOC: Besta svæðið innan Pays Nantais, kennt við árnar Sèvre og Maine. Muscadet Sèvre et Maine er þekkt fyrir að framleiða vönduð vín, oft „sur lie“ – það er að segja að vínið er látið liggja á fínni gerlausn yfir veturinn, sem gefur meiri fyllingu og karakter. Þessi stíll hefur gert svæðið þekkt á alþjóðavísu.
- Muscadet Coteaux de la Loire AOC
- Muscadet Côtes de Grandlieu AOC
- Gros Plant du Pays Nantais AOC: Hér eru einkum gerð hvítvín úr þrúgu sem kallast Folle Blanche. Heimamenn kalla afbrigðið Gros Plant, sem þýðir „stór planta“, en þetta afbrigði vex mjög kröftuglega og vínviðurinn getur orðið mjög stór og umfangsmikill.
- Coteaux d’Ancenis AOC: Hér eru gerð rauðvín (Gamay, Cabernet Franc), rósavín (Pinot Gris) og hálfsæt hvítvín (Pinot Gris, sem heimamenn kalla Malvoise)
- Fiefs Vendéens AOC: Hér eru gerð rauðvín (Cabernet Franc, Pinot Noir), rósavín (Grolleau Gris) og hvítvín (Chenin Blanc).
Anjou-Saumur
Anjou-Saumur er stærsta vínræktarsvæðið í Loire-dalnum. Loftslagið er blanda af sjávar- og meginlandsloftslagi þar sem áhrif Atlantshafsins minnka eftir því sem innar er farið. Veturnir eru aðeins kaldari og sumrin aðeins hlýrri en í Pays Nantais. Um helmingur framleiðslunnar eru rósavín, en hér eru einnig gerð rauðvín (20%), hvítvín og freyðivín. Chenin Blanc og Cabernet Franc eru mest ræktuðu þrúgurnar, ásamt Grolleau Gris og Grolleau Noir.
Helstu AOC eru:
- Anjou AOC: Hér eru gerð fjölbreytt vín úr Chenin Blanc, Cabernet Franc, Cabernet Sauvignon og Grolleau Gris. Innan Anjou AOC er Anjou Villages AOC – 46 þorp hafa heimild til að kenna rauðvín sín við Anjou Villages AOC en nöfn þorpanna koma þó ekki fram á miðanum. Vínin eru ávallt blöndur Cabernet Sauvignon og Cabernet Franc.
- Saumur AOC: Langstærsta freyðivínssvæðið í Loire. Freyðivín, sem oftast eru kölluð Saumur Brut, geta verið hvít (Chenin Blanc) eða rósalituð (Cabernet Franc) og þurfa að liggja a.m.k. 9 mánuði sur-lie. Hvítvín héraðsins eru 100% Chenin Blanc og rauðvínin að stærstum hluta Cabernet Franc.
- Saumur-Champigny AOC: Eitt mikilvægasta rauðvínshéraðið í Anjou-Saumur. Rauðvín eru að mestu úr Cabernet Franc – mjúk, fersk með meðalsterkum tannínum.
- Coteaux du Layon AOC , Bonnezeaux AOC og Savennières AOC eru helstu svæðin kringum ána Layon, en þarna eru gerð dásamleg sæt hvítvín úr Chenin Blanc – rík og hunangskennd, með góða sýru sem tryggir langt geymsluþol. Svæðin við Layon eru þau einu í Loire sem hafa premier cru og grand cru-svæði.
- Crémant de Loire AOC: Þetta svæði nær yfir freyðivín í bæði Anjou-Saumur og Touraine. Freyðivín eru úr Chenin Blanc, Chardonnay og Cabernet Franc og geta verið árgangsvín eða árgangablöndur.
- Rosé de Loire AOC nær einnig yfir bæði Anjou-Saumur og Touraine. Hér eru ýmsar þrúgur leyfðar og vínin eiga ávallt að vera þurr.
Touraine
Touraine má skipta í þrennt þegar víngerð er annars vegar. Í vesturhlutanum eru einkum gerð rauðvín úr Cabernet Franc, í miðhlutanum hvítvín úr Chenin Blanc og í austurhlutanum hvítvín úr Sauvignon Blanc. Rauðvín eru um helmingur framleiðslunnar í Touraine – Cabernet Franc ráðandi en einnig má nota þrúgur á borð við Pinot Noir, Gamay og Côt (Malbec). Hvítvín úr Chenin Blanc og Sauvignon Blanc eru rúmur fjórðungur framleiðslunnar, freyðivín úr Chenin Blanc um 17% og afgangurinn rósavín úr margvíslegum þrúgum.
Helstu AOC eru:
- Vouvray AOC: Chenin Blanc-vín sem geta verið þurr, hálfþurr eða sæt. Einkenni eru góð sýra, epla- og blómatónar. Mikilvægasti hluti framleiðslunnar eru þó freyðvín úr Chenin Blanc, sem þurfa að lágmarki 12 mánaða sur-lie geymslu.
- Chinon AOC og Bourgueil AOC: Þekkt fyrir rauðvín úr Cabernet Franc (má nota smá Cabernet Sauvignon), sem eru fersk, krydduð og með góða geymsluhæfni.
- Touraine AOC: Að mestu fersk hvítvín úr Sauvignon Blanc og fjölbreytt rauðvín, einkum Côt og Cabernet Franc.
Mið-Loire (Centre)
Svæðið er líklega þekktasta svæðið í Loire-dalnum, einkum fyrir hvítvín frá Sancerre og Pouilly-Fumé. Hér ríkir meginlandsloftslag með miklum hitasveiflum yfir árið. Á vorin er hætt við frosti sem getur verið skaðlegt fyrir nývaknaðan vínvið, en á sumrin geta komið haglél sem geta skemmt þrúgurnar. Áður en phylloxera rótarlúsin kom til Frakklands var Chasselas mest rækaða þrúgan á þessu svæði. Það gekk illa að græða tegundina á lúsaþolnar rætur og því var skipt yfir í Sauvignon Blanc. Chasselas er nú nær eingöngu að finna í Alsace og Savoie í Frakklandi og í Sviss. Pinot Noir er ráðandi rauða þrúgan á þessu svæði. Í Mið-Loire eru fjórar mismunandi jarðvegstegundir ráðandi, sem geta gefið vínunum ólík einkenni – kalksteinn (caillottes), blanda af leir og kalksteini (terres blances), tinnuríkur jarðvegu (silex) og svo blanda af leir og möl.
- Sancerre AOC er á vinstri bakka Loire-árinnar, og er þekkt fyrir hvítvín úr Sauvignon Blanc. Hér geta jarðvegsáhrifin komið mjög greinilega fram – silex-jarðvegur gefur áberandi steinefnabragð, caillottes gefur ilmrík vín sem þroskast snemma og terres blanches gefur kröftug vín sem geta elst vel. Tæpur fimmtungur framleiðslunnar eru rauðvín úr Pinot Noir.
- Pouilly-Fumé AOC er hægra megin við Loire, andspænis Sancerre. Hér eru allar áðurnefndar jarðvegstegundir til staðar og vínbændur blanda oft vínum frá mismunandi jarðvegssvæðum til að fá fram það besta frá hverju svæði. Einkennandi eru reyktir og steinefnakenndir tónar („fumé“ þýðir reykt og heimamenn kalla Sauvignon Blanc oft „Blanc-Fumé“). Þessi vín eru almennt flóknari og djúpgerðari en vín frá Sancerre.
- Menetou-Salon AOC: Vín í svipuðum stíl og Sancerre – létt, fersk og sítrusrík.
Efra-Loire
Hér erum við nánast komin í miðju Frakklands og hér ríkis meginlandsloftslag – kaldur vetur og heit sumur með talsverðum dægursveiflum í hitastigi. Á þessu svæði eru nokkuð útdauð eldfjöll en það gætir þó smá eldfjallaáhrifa í jarðveginum. Hvítvínin hér eru einkum gerð úr Chardonnay – rauðvínin úr Gamay og Pinot Noir
Val de Loire IGP
Í Loire-dalnum eru 6 skilgreind IGP-svæði. IGP stendur fyrir Indication Géographique Protégée, sem táknar að þrúgurnar sem fara í vínið þurfa að koma frá tilgreindu svæði, en mun frjálsari reglur gilda um sjálfa víngerðina og val á þrúgum en í AOC-reglunum. Val de Loire IGP nær yfir allan Loire-dalinn og er landfræðilega stærsta IGP-svæði Frakklands. Flest vínin eru „einnar-þrúgu“ vín (þurfa að innihalda minnst 85% af tilgreindri þrúgu) og rúmur helmingur þeirra eru hvítvín. Innan Val de Loire IGP eru svo 14 sérstaklega tilgreind svæði (départements) og 13 þeirra má taka fram á flöskumiðanum (Loire-Atlantique má ekki tilgreina upprunasvæðið af samkeppnisástæðum við Muscadet AOC og Muscadet Sèvre-et-Maine AOC).
Staðan í Vínbúðunum
Þegar þetta er skrifað er hægt að nálgast 14 vín frá Loire í Vínbúðunum, þar af 4 með sérpöntun. Tvö þeirra eru reyndar sögð vera á útleið. Þrjú vínanna eru freyðivín en hin eru hvít.