Það er ákaflega sjaldan að styrkt vín fái umfjöllun hér á Vínsíðunni – eiginlega allt of sjaldan. Við nánari athugun sýnist mér að ég hafi aðeins einu sinni áður fjallað um styrkt vín hér á Vínsíðunni – þá skrifaði ég um Dow’s 2007 púrtvín. Ég varð þeirrar gleði aðnjótandi að fá að opna aðra flösku af Dow’s 2007 fyrir skömmu þegar yngri dóttir mín lauk stúdentsprófi. Ég keypti nefnilega 3 flöskur af þessu ágæta púrtvíni fyrir mörgum árum og ákvað að opna þær þegar börnin lykju stúdentsprófi (eða mótsvarandi námi) og nú á ég eina flösku eftir…
Það eru til fleiri styrkt vín en púrtvín. Styrkt vín eru vín sem eru gerð úr þrúgusafa þar sem gerjunin er stöðvuð nokkuð snemma með því að bæta út í spíra. Spírinn er yfirleitt gerður úr sams konar þrúgum og þær sem þrúgusafinn er gerður úr. Spítinn getur til dæmis verið hið ítalska Grappa, sem er búið til með því að eima þrúgur og hrat sem höfðu áður verið notaðar í víngerð, eða Marc – sams konar spíri frá Frakklandi.
Ratafia er dæmi um styrkt vín sem er búið til með því að blanda spíra út í ógerjaðan þrúgusafa. Þetta er m.a. gert í Champagne í Frakklandi. Ratafia er líka notað yfir kryddlíkjöra ýmis konar (oft gert úr spíra sem er bragðbættur með ávöxtum, sítrónuberki og kryddum).
Ítalskt Ratafia er hins vegar sykurbættur líkjör og mjög frábrugðið frönsku Ratafia.
Vín dagsins
Vín dagsins er Ratafia de Champagne frá vínhúsi Gilles Dumangin. Dumangin gerir líka kampavín en mestum árangri hefur hann náð með Ratafia-vínum sínum og unnið til verðlauna fyrir þau. Þá gerir Dumangin einnig skoskt vískí sem er látið liggja á tunnum sem áður hafa verið notaðar undir Ratafia. Vín dagsins er gert úr þrúgunum Meunier (2/3) og Pinot Noir (1/3). Að lokinn gerjun er vínið látið hvíla í 9 ár á eikartunnum sem áður höfðu verið notaðar undir rauðvín frá norður-Rhone. Árlega eru gerðar um 3.500 flöskur af þessu víni.

Dumangin Ratafia Champenois ‘Craft’ hefur rafgullinn lit og þéttan, sætan ilm af ferskjum, apríkósum, eplum og bökunarkryddum. Vínið er sætt, með góða sýru, góða fyllingu og það vottar aðeins fyrir tannínum. Eftirbragðið er langt og þétt, og þar má finna ferskjur, apríkósur, vanillu, fíkjur, hunang, eik og krydd. 93 stig. Drekkist kalt, gjarna sem fordrykkur, með hörðum ostum eða með súkkulaðieftirréttum.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4,3 stjörnur (85 umsagnir þegar þetta er skrifað)
