Þorpið Mersault er eitt af stærstu þorpunum í Côte de Beaune í Búrgúnd, þ.e. miðað við fjölda hektara af vínekrum. Vínekrur í Mersault ná yfir tæpa 500 hektara, þarf af eru 107 hektarar premier cru-vínekrur. Í Mersault eru engar grand cru-vínekrur en að mati ýmissa sérfræðinga eiga sumar vínekrurnar fyllilega skilið að vera grand cru. Premier cru-vínekrurnar eru 19 talsins, og þá er fjöldi af s.k. lieu-dit vínekrum – sérstaklega afmarkuð og nafngreind svæði sem oft eru afbragðsgóð en eru hluti af stærra premier cru-svæði eða utan þeirra. Lieu-dit geta tengst sögulegri notkun eða verið með sérstakan jarðveg.
Vínin frá Mersault eru nær eingöngu hvítvín, og þá auðvitað úr Chardonnay. Í Mersault vex þó pínulítið af Pinot Noir, að mestu leyti á premier cru-vínekru sem nefnist Santenots og tilheyri bæði Mersault og nágrannahéraðinu Volnay. Úr Pinot Noir-þrúgum Santenots eru gerð rauðvín sem eru talin með Volnay og kallast Volnay Santenots. Hvítvín af þessari sömu vínekru teljast hins vegar til Mersault. Vínekran skiptist upp í fjögur lieu-dit – Les Santenots-Dessus, Les Santenots-Blanc, Les Pleures og Santenots-du-Milieu. Vínin sem koma frá Santenots-du-Milieu þykja vera bestu rauðvínin frá Volnay.
Vín dagsins
Domaine Chavy-Chouet er fjölskyldurekið vínhús í Meursault. Vínhúsið er nú í umsjá sjöunda ættliðar Chavy-fjölskyldunnar, Romain Chavy. Vínekrur Chavy-Chouet ná yfir u.þ.b. 15 hektara, dreift yfir níu héruð, en auk premier cru–vínekra í Mersault á Chavy-Chouet einnig premier cru-vínekrur í Puligny-Montrachet, Saint-Aubin, Volnay og Pommard.
Langstærsti hluti framleiðslunnar eru hvítvín en í Pommard og Volnay ræktar Chavy-Chouet Pinot Noir og gerir úr þeim rauðvín.
Vín dagsins er hreint Chardonnay frá Mersault, nánar tiltekið af spildu sem kallast Clos des Corvées de Citeau. Clos táknar að þessi hluti vínekrunnar sé girtur af, en þetta er gömul vínekra (frá miðöldum) sem var lengi í eigu munka í Citeaux-klaustrinu. Jarðvegurinn í þessari spildu er kalkrík blanda með fínum leir, sem gefur vínunum jafnvægi milli mýktar og steinefna. Þessi tiltekna vínekra er öll í eigu Chavy-Chout og er því auðkennd með orðinu Monopole. Flestar vínekrur í Búrgúndí eru í eigu margra vínbænda – stundum eiga bændurnir aðeins lítinn hluta af vínekrunum, en þetta dreifða eignarhald má rekja til erfðalaga sem sett voru á tímum Napóleóns Bonaparte og áttu að tryggja að allir erfingjar fengju eitthvað í sinn hlut (en ekki bara elsti sonurinn eins og áður tíðkaðist). Þessi vínekra vaknar yfirleitt snemma til lífs á vorin, en vorið 2021 var erfitt í Mersault. Frost í byrjun apríl höfðu slæm áhrif á uppskeru Clos des Corvées de Citeau sem var ekki nema um fjórðungur af því sem vænta mátti í venjulegu árferði. Vín dagsins var að lokinni gerjun og maló-efnaferli látið hvíla í eikartunnum (20% nýjar tunnur) í 12 mánuði áður en það fór á flöskur.

Chavy-Chouet Meursault Clos des Corvées de Citeau Monopole 2021 hefur fallegan sítrónugulan lit með miðlungsdýpt. Í nefinu er þéttur ilmur af eplum, sítrínum, perum, vanillu, eik, smjöri og ferskjum. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru, miðlungs fyllingu og langt eftirbragð, þar sem finna má epli, perur, sítrónur, vanillu, smjör og ferskjur. 94 stig. Ágæt kaup (11.300 kr). Njótið með skelfiski, laxi, pastaréttum og hvítmygluostum.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4,3 stjörnur (aðeins 48 umsagnir þegar þetta er skrifað).
