Matthiasson-víngerðin var stofnuð árið 2003 af hjónunum Steve og Jill Matthiasson. Steve rekur ættir sínar til Íslands, eins og sjá má á nafninu, en forfeður hans bjuggu á Ströndum (nánar tiltekið á Skriðnesenni). Þau hjónin hafa ekki alltaf fetað troðnar slóðir í víngerðinni og rækta m.a. þrúgur á borð við Refosco, Schioppettino og Ribolla Gialla. Þau hafa hins vegar verið brautryðjendur í lífrænni vínrækt og sjálfbærni á vínekrunum. Fyrir þetta frumkvöðlastarf sitt hefur Steve margsinnis verið tilnefndur til hinna eftirsóttu James Beard-verðlauna (og hlýtur þau vonandi að lokum).
Rauðvín frá Kaliforníu, sérstaklega Cabernet Sauvignon-vín, eru þekkt fyrir að vera kröftug og með nokkuð hátt alkóhólinnihald. Matthiasson sækist hins vegar frekar eftir fágaðri og fínlegri vínum með lægra alkóhólinnihald.
Vín dagsins
Árið 2021 var ákaflega þurrt ár í Napa Valley. Í miklum þurrki verða vínberin minni, tannínríkari og bragðmeiri. Það getur auðveldlega leitt til þess að vínin verði áfengisríkari, en vín dagsins inniheldur aðeins 12,5% áfengishlutfall. Þrúgurnar koma af nokkrum vínekrum Matthiasson í Napa Valley, sem allar eru lífrænt vottaðar. Um 95% af þrúgunum eru Cabernet Sauvignon, en lítill hluti þeirra eru Petit Verdot (3%), Merlot (1%) og Cabernet Franc (1%). Vínið var gerjað í litlum tönkum og reynt að halda hitanum niðri til að varðveita frískleika og bragð. Vínið fór svo á tunnur úr franskri eik (flestar höfðu verið notaðar áður, en tæp 20% voru nýjar tunnur) þar sem það hvíldi í 20 mánuði áður en það fór á flskur.

Matthiasson Cabernet Sauvignon Napa Valley 2021 hefur djúpan rúbínrauðan lit og þéttan ilm af sólberjum, svörtum kirsuberjum, brómberjum, plómum, leðri, myntu, vanillu, súkkulaði, steinefnum, sedrusvið og eik. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru, góð tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er langt, heldur sér mjög vel og það má finna sólber, kirsuber, plómur, leður og vanillu. 93 stig. Góð kaup (11.880 kr). Þetta er vín fyrir góðar steikur – naut, lamb eða villibráð. Vínið hefur eflaust gagn af nokkurra ára geymslu (eldist vel næstu 10 árin) en er samt alveg tilbúið í glasið núna. Í vínbúðunum er hægt að nálgast eldri árgang (2018) af þessu víni sem er aðeins lengra komið í þroska.
James Suckling gefur þessu víni 94 stig og notendur Vivino gefa því 42 stjörnur (reyndar ekki nema 35 umsagnir þegar þetta er skrifað). Jancis Robinson gefur því 16,5+/20.
