Cantina Santadi Rooca Rubia Carignano del Sulcis Riserva 2021

Vínhúsið Cantina Santadi hóf starfsemi árið 1960.  Vínhúsið er staðsett á eyjunni Sardiníu, nánar tiltekið í Sulcis-héraðinu á suðvesturhluta eyjarinnar.  Santadi hefur frá upphafi einbeitt sér að ræktun  “innlendra” þrúga – Carignano, Monica, Nuragus og Nasco.  Á vínekrum Santadi má þó einnig finna hefðbundnar Ítalskar þrúgur á borð við Vermentino, Sangiovese, Syrah, Merlot og Chardonnay. 

Fyrstu árin framleiddi Santadi vín sem voru einkum ætluð fyrir heimamarkað, en um miðjan áttunda áratug síðustu aldar tóku nýjir aðilar við stjórnartaumum Santadi.  Þeir breyttu um áherslu og vildu framleiða vönduð vín sem gætu náð árangri á mörkuðum erlendis.  Þeir fengu til liðs við sig Giacomo Tachis, heimsþekktar vínfræðing sem hafði komið að gerð vína á borð við Sassicaia og Tignanello – ofur-Toskanavín sem eru ein þekktustu vínin frá Ítalíu.  Í samstarfi við Tachis þróaði Santadi flaggskip sitt – Terre Brune.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá svæði sem kallast Sulcis á suðvestur horni Sardiníu. Nánar tiltekið fellur þetta vín undir skilgreininguna Carignano del Sulcis DOC. Undir flokkun Carignano del Sulcis DOC er hægt að búa til rauðvín og rósavín. Rauðvínin geta flokkast sem riserva, superiore, novello eða passito, en flest eru vínin „venjuleg“ – þ.e. án sérstakrar nafnbótar. Passito eru gerð úr þurrkuðum þrúgum (ekki ósvipað Amarone). Riserva þurfa að fá a.m.k. 2 ára geymslutíma, þar af minnst 6 mánuði í flösku, en „venjuleg“ rauðvín þurfa ekki nema 3 mánuði í flöskunni. Til að vín geti kallast superiore þurfa þrúgurnar að koma af vínvið sem hefur verið látinn vaxa sem runni samkvæmt aðferð sem kallast Alberello Latino. Til novello rauðvína (ung vín) og rósavína er ekki gerðar miklar kröfur, en vínin þurfa ekki að ná meira en 11% áfengishlutfalli (þrúgurnar þurfa auðvitað að koma frá svæðinu).

Vín dagsins er hreint Carignano, sem að lokinni gerjun í stáltönkum (hér er mikið notast við s.k. pump-over, þ.e. safanum er endurtekið dælt yfir hratið sem flýtur annars upp á yfirborðið, til að ná sem mestu af tannínum úr þrúgunum). Að lokinni gerjun er vínið sett í franskar eikartunnur og látið hvíla þar í 1 ár áður en það er sett á flöskur til frekari hvíldar.

Cantina Santadi Rooca Rubia Carignano del Sulcis Riserva 2021 hefur djúpan rúbínrauðan lit með þéttan og aðeins kryddaðan ilm af vanillu, brómberjum, svörtum kirsuberjum, eik, tóbaki, lakkrís og hindberjum. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru og góð tannín sem eru þó enn aðeins hrjúf. Eftirbragðið heldur sér nokkuð vel, og þar má finna kirsuber, brómber, eik, vanillu, pipar og lakkrís. 91 stig. Mjög góð kaup (4.499 kr). Fer vel með nautakjöti, grilluðu lambi, pízzu og pasta Bolognese.

Notendur Vivino gefa þessu vín 4,0 stjörnur (395 umsagnir þegar þetta er skrifað). James Suckling gefur því 92 stig, Decanter 91 stig og Wine Enthusiast gefur 89 stig.

Cantina Santadi Rooca Rubia Carignano del Sulcis Riserva 2021
Mjög góð kaup
Cantina Santadi Rooca Rubia Carignano del Sulcis Riserva 2021 fer vel með nautakjöti, grilluðu lambi, pízzu og pasta Bolognese.
4
91 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook