Vín ársins 2010 á Vínsíðunni

Undanfarin ár hef ég haft þann vana að tilnefna vín ársins hér á Vínsíðunni.  Árið 2010 var nokkuð gott ár þegar vín eru annars vegar – nóg af góðum vínum á góðu verði!  Ég náði að tjá mig um 35 mismunandi vín (listinn verður birtur á næstu dögum) og var yfirleitt nokkuð ánægður með það sem ég prófaði.  Vínkælirinn minn var líka í óvenjulega góðu ástandi megnið af árinu og náði meira að segja þeirri eftirsóknarverðu stöðu að vera yfirfullur! Ástandið er enn frekar gott og nú eru mörg spennandi vín sem liggja og bíða þess að verða tekin fram þegar þeirra tími er kominn!
Þegar kemur að valinu á víni árins eru margvísleg atriði höfð til hliðsjónar – verð og gæði skipta miklu máli – en þegar öllu er á botninn hvolft er það auðvitað mín eigin skoðun sem skiptir mestu – hvaða vín var mest spennandi!
Eftirfarandi vín stóðu helst upp úr á árinu:

  • Lammershoek Red Roulette 2006 – alveg einstaklega gott vín, ávaxtaríkt með kirsuberjum, plómum og leðri mest áberandi í seiðandi angan.  Góð fylling í munni, mjúk tannín og hæfileg sýra.  Langt og gott eftirbragð.  Einkunn: 9,0 – Bestu Meðmæli.
  • William Fevre Chablis 2008 – góður sítrusilmur með ögn af eik, perum og smjöri, frísklegt í munni með mjúkum eikartónum.  Sítrusinn áberandi í eftirbragðinu.  Einkunn: 9,0 – Bestu Meðmæli.
  • Sette Ponti Crognolo 2007 – vínið er enn mjög ungt, óvenjumiklar fjólur í ilminum ásamt plómum, leðri og smá eik.  Mikil tannín og greinilegt sólberjabragð, góð fylling og gríðarlega langt og gott eftirbragð.  Frábært vín sem þarfnast samt smá tíma til að þroskast betur.  Einkunn: 9,0 – Bestu Meðmæli.
  • Seghesio Zinfandel 2008 – vínið er enn nokkuð ungt, sætur berja- og lakkrískeimur með vott af pipar, leðri og amerískri eik.  Í munni nokkuð þétt tannín og góð sýra, berjabragðið kemur vel fram og eftirbragðið heldur sér vel.  Einkunn: 8,5 – Góð Kaup!
  • Domaines Schlumberger Gewurztraminer Les Princes Abbés Alsace 2007 –  ljósleitt vín með sætri angan af perum, sítrónu og smá rósakeim.  Í munni var vínið aðeins sætara en maður býst við af Gewurztraminer, góð sýra og fylling, örlítill möndlukeimur en þó ekki þessi týpiski hnetukeimur sem maður fær oft í Gewurztraminer.  Einkunn: 8,0 – Frábær Kaup!

En þegar kemur að víni ársins er í raun aðeins eitt vín sem kemur til greina. Ekkert vín hefur hlotið jafn mikið lof á árinu og Brancaia Tre 2007! Vínið prófaði ég fyrst í janúar og þegar upp er staðið er þetta það vín sem ég hef drukkið mest af á síðastliðnu ári (aldrei pantað jafn mikið af einu víni!) og er mjög glaður að eiga enn einhverjar flöskur í kælinum.  Vínið lenti í 10. sæti á topp-100 listanum hjá Wine Spectator árið 2009 en þar sem vínið var ekki fáanlegt hér fyrr en ár síðasta ári (og ekki prófað fyrr en þá) þá finnst mér að það eigi heima á listanum fyrir árið 2010.  Ég á reyndar líka vínið sem lenti í 6. sæi á sama lista (Barone Ricasole Castello di Brolio Chianti Classico 2006) en mér finnst þetta hafa verið miklu betri kaup.  Umsögn mín þegar ég smakkaði Brancaia Tre 2007 var á þessa leið:

Þetta er nokkuð ljóst vín að sjá, dæmigert Chianti-útlit.  Í nefið kemur kaffi- og berjailmur ásamt ögn af lakkrís og blómum.  Í munni dálítið tannískt en hins vegar mikil sýra, góð fylling og gott eftirbragð.  Frábært vín sem vakti mikla hrifningu meðal allra viðstaddra.  Vínið er blanda Sangiovese (80%), Cabernet Sauvignon (10%) og Merlot (10%), fellur undir IGT-flokkinn og gæti því tæknilega talist vera ofur-Toskani. Einkunn: 9,0 – Frábær Kaup!

Það tilkynnist því hér með að vín ársins 2010 á Vínsíðunni er Brancaia Tre 2007!

Brancaia Tre

Þetta er nokkuð ljóst vín að sjá, dæmigert Chianti-útlit.  Í nefið kemur kaffi- og berjailmur ásamt ögn af lakkrís og blómum.  Í munni dálítið tannískt en hins vegar mikil sýra, góð fylling og gott eftirbragð.  Frábært vín sem vakti mikla hrifningu meðal allra viðstaddra.  Vínið er blanda Sangiovese (80%), Cabernet Sauvignon (10%) og Merlot (10%), fellur undir IGT-flokkinn og gæti því tæknilega talist vera ofur-Toskani. Einkunn: 9,0 – Frábær Kaup!

Vinir á Facebook