Árshátíð Vínklúbbsins

Vínklúbburinn hélt sína margrómuðu árshátíð í gær í veiðihúsinu við Grímsá í Borgarfirði.  Því miður var ég (að vanda) fjarri góðu gamni og löngu kominn tími á að bóka helgarferð í marsmánuði til að geta tekið þátt í þessari mögnuðu veislu.  Okkur tókst þó að fá smá nasaþef af veislunni í ár, því ég bauð Keizaranum í mat og bauð upp á sama matseðil og vínklúbburinn fékk.
Í forrétt var humar með hvítlauk, villisveppum og papriku.  Frábær réttur sem vakti einróma lukku hjá öllum sem hann smökkuðu (nema Örnu!).  Með humrinum drukkum við Domaines Schlumberger Gewurztraminer Les Princes Abbés Alsace 2007.  Ljósleitt vín með sætri angan af perum, sítrónu og smá rósakeim.  Í munni var vínið aðeins sætara en maður býst við af Gewurztraminer, góð sýra og fylling, örlítill möndlukeimur en þó ekki þessi týpiski hnetukeimur sem maður fær oft í Gewurztraminer.  Frísklegt vín sem smellpassaði með humrinum og vakti mikla ánægju.  Einkunn: 8,0 – Frábær Kaup! (SEK 149)
Í aðalrétt var lambakóróna með kóríanderraspi, parmakartöflum og juce, ásamt zucchini, kirsuberjatómötum og basiliku.  Við höfum hingað til verið hálf-skeptísk þegar kemur að sænsku lambakjöti og haft vissa fordóma gagnvart því, en í gær fengum við frábært lambakjöt, auðvitað frá Anderson & Tillman (kjötframleiðendur í Uppsala).  Kjötið var reyndar marinerað en ég hreinsaði bara marineringuna burt.  Kjötið var lungnamjúkt og bragðgott, og meðlætið var líka mikið lostæti.  Með kjötinu drukkum við Torres Gran Coronas Cabernet Sauvignon Reserva 2005.  Fallega rautt vín með sæmilega dýpt.  Í nefi áberandi eikartónar ásamt kryddum, vanillu og kirsuberjum.  Í munni er vínið ágætlega tannískt en þó farið að mýkjast, gott jafnvægi, smá kakó, kirsuber og eik.  Gott eftirbragð.  Einkunn: 7,0 – Góð Kaup. (SEK 89 / ISK 2599)
Í eftirrétt var bláberjakaka með garðablóðbergsís, bláberjasósu og skyrmús (ég þurfti reyndar að nota tyrkneskt jógúrt í staðinn fyrir skyr, sem því miður er ekki fáanlegt hér í Uppsölum).  Kakan var mjög góð, ísinn dálítið sérstakur en samt mjög góður.  Mjög íslenskur eftirréttur!  Passar eflaust vel með freyðivíni, en því miður hafi ég ekkert slíkt á boðstólum.  Í staðinn fengum við okkur kaffi og Camus Napoleon koníak…
Frábært kvöld og ég get ímyndað mér að stemmningin á árshátíðinni hafi verið stórkostleg að vanda.

Vinir á Facebook