Sumarfríið búið

Já, þá er sumarfríið búið – allt of fljótt, fannst mér!  Í síðustu viku fórum við í sumarhús í Orsa ásamt Keizaranum og fjölskyldu hans.  Ég hafði ákveðið að taka eina góða rauðvínsflösku með mér og opna fyrsta kvöldið.  Fyrir valin varð Penfolds St. Henri Shiraz 2004, sem ég keypti í London í fyrra.  Það verður að segjast eins og er að það var eiginlega ekki mjög gott val hjá mér, því vínið var alls ekki tilbúið.  Það var fallegt að sjá, dökkrautt og unglegt.  Lyktin var nokkuð lokuð – tóbak, leður og lakkrís en ekki mikið annað.  Í munni var vínið mjög tannískt og einnig mikil sýra á ferðinni (jaðraði við að vínið væri súrt), kröftugt vín með þokkalegu eftirbragði.  Við ákváðum því að láta vínið standa nokkra stund í glösunum og við það batnaði vínið til muna, mýktist upp og fékk meiri þokka.  Vínið þarf því að bíða nokkur ár til viðbótar, 5-10 ár a.m.k., áður en það fer að njóta sín.
Annars drukkum við helst Periquita, portúgalskt kassavín sem sænska þjóðin virðist elska, og svo góðkunningja okkar hann Ramos, kassavín frá Spáni.  Ég tók líka með einn kassa af Foot of Africa Chenin Blanc 2008 og var bara nokkuð ánægður með hann.  Þetta er ljósleitt hvítvín, daufur ilmur af sítrus og blómum.  Þægilegt bragð, smá sítruskeimur með miðlungs fyllingu.  Nokkuð góð kaup (kostar aðeins 169 SEK)

Vinir á Facebook