Að velja vín fyrir brúðkaup

Það getur verið þrautin þyngri að velja vín fyrir brúðkaup! Ég stend nú í þessum sporum og er að leita að heppilegum vínum til að bera á borð fyrir gesti í fyrirhuguðu brúðkaupi okkar Guðrúnar nú í sumar. Ég hef velt þessu nokkuð fyrir mér enda mikilvægt að vel takist til. Það er þó margt sem þarf að huga að. Í fyrsta lagi þarf að velja vín sem ætla má að flestum muni líka við. Einnig þarf að taka tillit til pyngjunnar! Það er ekkert gefið mál að gestir okkar hafi sama smekk og við (nema kannski einhverjir meðlimir Vínklúbbsins) og því mikilvægt að vínin höfði til sem flestra. Rauðvínið þarf því að vera nokkuð aðgengilegt – ávaxtaríkt, ekki of tannískt og ekki of þungt. Þannig er líklegast að frönsku vínin séu ekki jafn líkleg til vinsælda og t.d. vín frá Chile eða Ástralíu. Concha y Toro Casillero del Diablo frá Chile er yfirleitt nokkuð traust val, hvort sem maður velur Merlot eða Cabernet Sauvignon. Sunrise kemur þó vart til greina, enda vissar grunnreglur sem þarf að fylgja! Lindemans Bin 50 Shiraz stendur alltaf fyrir sínu, Bin 45 Cabernet Sauvignon gæti einnig komið til álita en því miður er Bin 40 Merlot ekki fáanlegt í Ríkinu. Penfolds Koonunga Hill og Rawson’s Retreat koma einnig til greina, sem og Wolf Blass Eaglehawk Cabernet Sauvignon. Turning Leaf Zinfandel og Cabernet Sauvignon eru líklega einu amerísku vínin sem gætu hlotið náð fyrir augum dómnefndarinnar. Maður gæti þó kannski gerst djarfur og boðið upp á einhvern spánverja, þá einna helst Montecillo Crianza eða jafnvel Ítala, s.s. Planeta La Segreta.
Hvítvínin eru sennilega aðeins einfaldari. Montes Chardonnay, jafnvel Reserve. Peter Lehmann Barossa Riesling, Rosemount Semillon Chardonnay eða Rosemount Chardonnay er líklegust til að verða fyrir valinu.
Freyðivínið er kannski erfiðast af öllu. Auðvitað vill maður helst skála í ekta kampavíni en ég er þó á þeirri skoðun að gott freyðivín getur jafnast á við þokkalegt kampavín og ef það skilur 2500 krónur á milli þá er valið auðveldara. Wolf Blass Red Label Chardonnay Pinot Noir eða Peter Lehmann Pinot Noir Chardonnay Cuvée gætu allt eins komið í staðinn!
Erfitt val, en samt alls ekki leiðinlegt, sérstaklega ekki prófunarferlið!

Vinir á Facebook