Tignanello er hið upprunalega „súper-Toscanavín“, en svo kallast vín frá Toscana sem ekki eru hefðbundin Chianti. Tignanello var upphaflega dæmigert Chiantivín en árið 1971 var því gjörbreytt þegar hætt var að fylgja reglum Chianti Classico Disciplinare og varð þá að „ómerkilegu“ vino da Tavola della Toscana („borðvín frá Toscana“), en flokkast nú sem IGT (Indicazione Geografica Tipica). Mörg IGT-vín eru hins vegar mjög vönduð gæðavín sem hafa fengið gælunafnið „súper-Toscanavín“, og það var einmitt Tignanello sem fyrst hlaut það viðurnefni. Tignanello er á margan hátt dæmigert Cabernet-vín, en þó sérítalskt að því leyti að það inniheldur einnig Sangiovese (85% Cabernet Saugvignon, 10% Sangiovese, 5% Cabernet Franc). Þetta er margverðlaunað vín sem er einungis framleitt úr þrúgum af Tignanello-vínekrunum. Tímaritið Wine Spectator gefur þessu víni 90 stig.
Vínið er dökkt, góð dýpt, byrjandi þroski. Í nefi sólber, dálítið kaffi, örlítill lakkrís. Mikil og góð fylling, mjúk tannín, langt og gott eftirbragð. Ég drakk þennan árgang fyrst þegar ég horfði á myndina Sideways (það er skilyrði að hafa gott rauðvín við hendina þegar horft er á þá mynd!) og varð mjög hrifinn. Ekki dró úr ánægjunni þegar ég sá þetta vín á tilboði í Fríhöfninni og gat þar gert mjög góð kaup. Vínið smellpassaði svo með rjúpunni nú á gamlárskvöld og hlýtur nú titilinn vín ársins 2005!
Einkunn: 8,5 – Góð Kaup