Wellington fátæka mannsins?

Á föstudaginn langaði okkur í góðan mat og gott vín, m.a. til að fagna því að Guðrún og sonurinn væru komin heim.  Ég fór í sund með dæturnar og maturinn varð því að vera einfaldur, hægt að útbúa fyrirfram eða hvoru tveggja.  Við gerðum því Beef Wellington með nautahakki í stað nautalundar, nokkurs konar Wellington fátæka mannsins (uppskriftina er að finna í einni af bókum Jamie Oliver og satt að segja höfðum við horft á þessa uppskrift í nokkurn tíma og langað til að prófa).  Við vildum líka drekka gott rauðvín og ég tók út eina Barone Ricasoli Castello di Brolio Chianti Classico 2006 sem ég fékk nýlega í hús.  Þetta vín lenti í 5. sæti á topp-100 lista Wine Spectator í fyrra og ég skil það vel!  Vínið er enn ungt og var mjög lokað þegar því var hellt beint úr flösku í glas og ég ákvað því að umhella því rösklega og prófa á ný.  Dásamlegur sólberja- og blómailmur með vott af lakkrís sem kemur betur fram í munni ásamt berjabragði.  Fín tannín og dásamlegt eftirbragð sem heldur sér nokkuð lengi.  Frábært Chianti Classco.   Einkunn: 9,5 – Frábær Kaup!
PS. Wellington-steikin var bara skrambi góð með villisveppasósu og kartöflum!

Vinir á Facebook