Rólegt á Austurvígstöðvunum

Það hefur verið rólegt að undanförnu hjá okkur – ég hef verið á vakt alla helgina og því ekki getað prófað neitt vín.  Vonandi verður gerð bragarbót á því um næstu helgi, en þá er úrslitakvöldið í sænska Melodifestivalen og við erum boðin í mat til vinafólks.  Melodifestivalen er mikil tónlistarveisla hjá svíanum – 4 undankeppnir, undanúrslit og svo úrslitakvöldið, samtals 4 keppnir þar sem hver og ein myndi nánast sóma sér vel sem úrslitakeppni Eurovision, einkum sjálft úrslitakvöldið sem haldið er í troðfullri Globen-höllinni.  Vikuna þar á eftir er ég svo í Falun og því lítið um vínprófanir en kannski get ég haldið áfram með vínhandbókina mína, sem hefur legið á ís undanfarna mánuði.
Árshátíð Vínklúbbsins er á næsta leiti og ég verð því miður fjarri góðu gamni.  Þetta eru magnaðar veislur og engu til sparað þegar kemur að mat og drykk.  Það er orðið allt of langt síðan ég komst á árshátíð Vínklúbbsins og nokkuð ljóst að það er kominn tími á mætingu!
Ég er búinn að panta tvær flöskur af Casa Lapostolle Clos Apalta 2007 og þær koma vonandi í vikunni.  Það verður kannski smá sárabót í staðinn fyrir árshátíðina.  Svo er ég að vonast til að Purple Angel verði fáanlegt með vorinu.  Innflytjandinn er að bíða eftir svari frá Systembolaget og lofaði að láta mig vita…

Vinir á Facebook