Góð uppskera í vikulok

Þetta er búin að vera ágæt vika.  Ég er reyndar búinn að vera á bakvakt alla vikuna en er núna kominn í helgarfrí.  Þetta var róleg vika, lítið um hringingar og til að bæta um betur vann Arsenal leikinn gegn Liverpool, Man U gerði jafntefli og Chelsea tapaði.  Sem sagt mjög góð vika.  Það var því eiginlega vel við hæfi að ég skyldi rekast á flösku af Isole e Olena Cepparello 2006 í vínbúðinni minni í dag!  Þetta vín hefur nefnilega ákveðinn goðsagnastatus hjá mér.  Í einu af fyrstu eintökunum af Wine Spectator sem ég sá var einmitt fjallað um þetta vín, nánar tiltekið 1997-árganginn sem var sá besti í sögu þessa víns (og líka einn besti árgangurinnn í sögu Toscana).  Mig hafði því lengi langað í þetta vín og aðeins smakkað eina flösku fyrir u.þ.b. 10 árum síðan, en ég fékk reyndar flösku að gjöf frá Palla frænda þegar hann var veislustjóri í brúðkaupi okkar Guðrúnar og gat því notið þessa víns í fyrra.  Ég var svo sem ekkert að leita mér að neinu tilteknu víni til að fjárfesta í í dag, ætlaði bara að kaupa bjór (Norrlands Guld) og rauðvínsbelju (Beringer Cabernet Sauvignon) en svo sá ég eina Cepparello í hillunni fyrir þau vín sem tímabundið má finna í búðinni (slík vín eru annars aðeins til pöntunar eða seld í einni af þremur „aðalbúðum“ systembolagsins).
Annars er ekki mikið á dagskrá þessa helgi.  Valentínusardagur er reyndar á sunnudaginn…

Vinir á Facebook