Er þetta í lagi?

Þegar ég byrjaði að blogga um vín fyrir rúmum 10 árum síðan var tilgangurinn auðvitað sá að deila vínáhuga mínum með hverjum þeim sem hafði sama áhuga, en auðvitað leyndist sá draumur á bak við þetta allt að ég fengi kannski eina og eina flösku gefins til að smakka og fjalla um.  Á meðan ég bjó á Íslandi fékk ég nokkrar flöskur til að prófa, sennilega hafa þetta verið 2-3 kassar í gegnum árin, og auðvitað reyndi ég að vera hlutlaus og fjalla um vínin á sama hátt, óháð því hvort ég keypti vínið eða fékk það gefins.  Aðeins einu sinni hef ég haft samband við vínumboð að fyrra bragði og beðið um sýnishorn til prófunar – það var nú í sumar þegar ég var veislustjóri í tæplega 500 manna veislu á Broadway.  Þá hafði ég samband við Vífilfell og fékk góðfúslega tvær flöskur til að prófa, en þessi vín voru á boðstólum í veislunni.  Öll önnur vín sem fjallað hefur verið um á þessari síðu hef ég keypt, verið gefið eða boðið upp á hjá öðrum.
Um daginn heyrði ég af því að einn ágætur bloggari, hvers nafn við skulum láta liggja á milli hluta, stundi það að panta sér vín og senda vínumboðunum reikninginn á þeim forsendum að umfjöllun hans sé góð auglýsing fyrir vínið.  Auðvitað er ýmislegt til í þeim orðum en þá er hlutleysið nánast farið veg allrar veraldar að mínu mati.  Ekki batnar sagan heldur við það að bloggarinn býr ekki lengur á Íslandi, en engu að síður fá íslensku vínumboðin reikninginn!
Finnst öllum það sjálfsagt mál að stunda slíkan leik (ef þetta er satt), og halda menn trúverðugleika sínum með þessu?
Rétt er að taka fram að umrætt blogg er að öðru leyti hið ágætasta og vel þess virði að lesa…
cheat

Vinir á Facebook