Amazon beygt til hlýðni!

Í vafri mínu um Netið í gær rakst ég á grein á íþróttasíðum eins af bresku slúðurblaðanna.  Í greininni var fjallað um söngva þá sem sungnir eru á áhorfendapöllum á Bretlandi, en sumir þeirra eru ansi klúrir, jafnvel með kynþáttafordómum og öðrum óhróðri.  Hér er sko ekki verið að tala um „Áfram KR – vinnum leikinn“ eða „Áfram Ísland, áfram Ísland – jafnvel þótt við getum ekki neitt“ – nei, slíkar barnavísur eru ekki kveðnar á breskum áhorfendapöllum! Meðal annars var fjallað um söng einn sem sunginn er á Old Trafford, þar sem Arséne Wenger, framkvæmdastjóri Arsenal, er sagður vera barnaníðingur!  Það sem er öllu verra er að einn s.k. „stuðningsmaður“ Manchester United hefur gefið út geisladisk með „stuðningsmannasöngvum“, þ.á.m. fyrrnefndum söng, og diskurinn er til sölu á bresku vefsíðu Amazon.  Líkt og mörgum fannst mér þetta hin mesta óhæfa og sendi inn kvörtun á vefsíðuna, þar sem ég lýsti því yfir að ég myndi ekki eiga frekari viðskipti við þá á meðan þessi vara væri seld á þeirra vefsvæði. (Hinir söngvarnir voru svo sem ekkert fallegir en enginn þeirra var hrein og klár ærumeiðing gagnvart tilteknum einstaklingi.)
Ég fékk svar um hæl þar sem borið var við að þeir vildu hafa sem breiðast úrval til að höfða til sem flestra viðskiptavina, vildu ekki ritskoða neitt og bla bla bla.  Svarið var nákvæmlega hið sama og ég hafði séð á einni vefsíðu.  Ég sendi því inn nýja athugasemd þar sem ég sagðist ekki samþykkja þetta svar og teldi að varan gæti brotið í bága við bresk lög, auk þess sem Amazon væri jú í þessu til þess að græða peninga, ekki til að auka listáhuga almennings.
Ég bjóst í raun ekki við frekari viðbrögðum af þeirra hálfu en síðar um kvöldið þegar ég lá uppi í sófa og horfði á sjónvarpið fékk ég símtal frá Amazon!  Fulltrúi úr þjónustudeild Amazon sagði að fleiri hefðu kvartað undan þessarri tilteknu vöru og að hún yrði líklega tekin úr sölu á næstunni (það var a.m.k. minn skilningur á því sem hann sagði, en hann talaði með óskýrum breskum hreim og er líklega ættaður frá einhverju litlu þorpi í Wales!).  Ég sagði það vera fínt en myndi bíða með frekari viðskipti þar til varan væri horfin af vefsíðunni.  Nú er búið að taka þetta út og ég get aftur farið að versla við Amazon.
Svona getur maður víst haft áhrif með því að kvarta og hóta að hætta viðskiptum!

Vinir á Facebook