Miðlungskvöld

Já, það er eiginlega hægt að segja að vínsmökkunin heima hjá Dr. Leifssyni hafi verið miðlungskvöld hvað varðar vínin sem smökkuð voru, því þar var fátt sem stóð upp úr.  Partíið sem fylgdi á eftir var hins vegar ágætt!
Fyrst prófuðum við Beringer Old Vine Zinfandel 2005.  Ljósleitt og ungt vín með angan af lakkrís, pipar, myntu og súkkulaði.  Sýran yfir meðallagi, skortir nokkuð tannín en þó með þokkalega fyllingu og sæmilegt eftirbragð.  Sæmilegt vín fyrir 100 SEK.
Því næst fengum við okkur Michel Picard Chassagne-Montrachet 2006.  Einnig ljóst og unglegt að sjá, dæmigert pinot-útlit.  Dálítil sveitalykt (útihús) ásamt sólberjum og hvítum pipar.  Góð tannín, góð sýra og gott jafnvægi.  Dálítið jarðvegsbragð og vínið hefur eflaust gott af 3-4 árum til viðbótar í flöskunni.  Kostar um 200 SEK og allt í lagi að prófa það síðar.
Að lokum opnuðum við Chateau Musar 2001.  Einhverra hluta vegna hef ég alltaf rennt hýru auga til þessa víns, enda heyrt mikið látið með það – perluna fyrir botni Miðjarðarhafs.  Vonbrigðin voru eftir því.  Ég átti einhverra hluta vegna von á allt öðru vísi víni en ljósleitu og hálf fölu víni með hrossaskít og reiðtygi í lyktinni.  Samt sem áður gott jafnvægi en hálf undarlegur berjakeimur í eftirbragðinu (rifsber?) féll mér ekki alveg í geð.  Kostar 250 SEK og verður ekki sjáanlegt í mínum vínkælum á næstunni!
Um helgina ætla ég að prófa Seghesio Zinfandel 2006.  2007-árgangurinn af þessu víni lenti í 10. sæti á topp-100 lista Wine Spectator og ég geri því ráð fyrir að 2006 sé líka allt í lagi.

Vinir á Facebook